Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Skemmtilegt

Þetta er búin að vera frábær helgi. Fyrir það fyrsta þá er ég búinn að vera í fríi og meira að segja síminn hefur ekkert angrað mig. Svo verður bara að segjast að jólaskapið er komið til að vera þetta árið, snjórinn sem liggur á yfirborði suðvesturhornsins vær kærkomin viðbót við öll jólaljósin og skreytingarnar sem búið er að koma fyrir í öllum gluggum og görðum.

Þá verður gærdagurinn seint toppaður á þessari aðventu. Þegar börnin voru búin að borða úr dagatalinu og tæma skóna sína var haldið í Smárann þar sem hinn vikulegi íþróttaskóli (fyrir Dagný og Bjarka) var á dagskrá. Var mætt klukkan 10, klukkustund fyrr en venjulega, þar sem farið var í gegnum fína þrautabraut og í framhaldi af því lét enginn annar en Stúfur sjá sig á svæðinu við mikla lukku barna (misgamalla). Ekki nóg með að Stúfur gamli væri fenginn til að fara þrautabrautina þvera og endilanga við mikla kátínu enda karlinn orðinn gamall og stirður, heldur kom í ljós að hann spilar líka svona listavel á harmonikku og spilaði hann undir meðan aðrir sungu jólalög og dönsuðu í kringum jólatré. Endaði svo samkoman á því að íspinnum var dreift til barnanna og hafa þau sjálfsagt sjaldan fengið íspinna fyrir hádegi (flest þeirra vonandi). En deginum var ekki lokið þar því ennþá beið jólaball handan við hornið.

Brunað var heim og farið í ögn fínni föt, Kristberg var skutlað í Sambíóin, þar sem hann mætti í bekkjarafmæli, en ég brunaði í flugskýli LHG, þar sem jólaball starfsmannafélagsins var haldið. Þar spiluðu og sungu að venju Maggi Kjartans og Helga Möller, og svo mættu á svæðið félagarnir Gáttaþefur og Sveppi og slógu þeir félagarnir heldur betur í gegn. Ekki mátti samt á milli sjá hvor þeirra er meiri jólasveinn. Þegar þeir voru búnir að skemmta og dreifa sælgætispokum til barnanna, var tekið til við pizzuát, en það er líka orðin hefð á jólaskemmtun starfsmannafélagsins.  Endað var svo á að elda Burritos og taka því rólega yfir frekar slakri sjónvarpsdagskrá. 3 elstu börnin náðu að kría út gistingu hjá ömmu og afa svo að þetta var frekar rólegt hjá okkur hjónunum í gærkvöld.

Í dag voru svo börnin sótt og kaffi drukkið í talsverðu magni. Í kjölfarið á heimkomu settust krakkanir saman við eldhúsborðið og perluðu saman allskonar jólamyndir. Núna er kjúklingurinn að grillast í ofninum og alla er farið að hlakka til hátíðarinnar.

Nú mega jólin koma. Ég er tilbúinn.


Veikindi og skipulag vegna þeirra.

Mikið ansk..... er maður búinn að vera eitthvað latur undanfarið, en það á sér að hluta til skýringar. Yngsta barnið mitt, Guðný Sunna, er búin að vera lasin undanfarnar tæpar tvær vikur. Hundleiðinleg veikindi sem hafa lýst sér í háum hita, sem kemur og fer í bylgjum, lystarleysi og almennum pirring hjá stelpunni. Á föstudaginn fór svo Berglind með Guðný Sunnu til læknis, í þriðja skiptið á þessum veikindatíma, og þá vildi læknirinn fara að skoða þetta eitthvað betur, sendi barnið í lungnamyndatöku  og komst að því að berkjurnar í vinstra lunga voru eitthvað óhreinar en vildi samt ekki kaupa þá skýringu á þessum háa hita sem búinn er að vera viðloðandi barnið þennan tíma. Hann sendi okkur því með barnið á bráðamóttöku Barnaspítalans og þar var tekin þvagprufa sem send var í einhverjar rannsóknir og tveimur tímum seinna var barnið lagt inn vegna leiðinlegrar þvagfærasýkingar. Það var ekkert með það að settur var upp æðaleggur hjá barninu, sem gekk það brösuglega að endað var á að setja upp legg í höfuðið á henni, og síðan var dregið úr henni blóð til rannsóknar og ræktunar áður en farið var að dæla lyfum í hana um þennan legg.

DSC00125

Eins og stumpur með þessar umbúðir

DSC00126

Þarna sést í kranann sem er tenging við æðakerfi hennar.

Það er alltaf erfitt að horfa upp á krílin sín þegar þeim líður illa, að ég tali nú ekki um þegar einhver úr heilbrigðisgeiranum er að meiða þau og þau skilja ekki af hverju.

Það er líka annað sem er ekki síður erfitt og það er að púsla saman heimilislífinu þegar eitt barnann veikist þannig að leggja þarf inn. Þá þarf annað foreldrið að vera á spítalanum allann tímann og hitt að hugsa um heimili og hin börnin. Svo þegar vinna bætist við þá er betra að eiga góða að. Við Berglind erum svo heppin að eiga góða að en það er bara þannig að núna eru flestir í sumarleyfi og því ekki staddir í bænum. Þó gat ég níðst á systur minni á föstudaginn og kom hún hlaupandi til að hugsa um hin börnin mín á meðan við reyndum að skipuleggja þeta mál eins og hægt er. Algjör bjargvættur, takk Halldóra.

Annars höfðum við það þannig að Berglind gisti á spítalanum, þar sem Guðný Sunna er enn á brjósti á meðan ég var heima hjá hinum og fór leysti síðan Berglindi af yfir daginn á meðan hún aðeins hreyfði sig og fékk feskt loft.

Við fengum svo staðfestingu úr rannsóknum í morgun og fékk stelpan því að koma heim áðan og líður henni greinilega miklu betur. Nú bíðum við bara eftir að hún verði kölluð inn aftur í frekari rannsóknir, sem verður vonandi klárað á næstu 2 vikum þar sem við ÆTLUM í sumarbústað föstudaginn 8. ágúst.

Jæja, þá er búið að pústa um þetta og þarf ekki að ræða það meir. Set eitthvað skemmtilegra inn fljótlega.


Sigurvegari kominn heim

Ég bara verð að monta mig aðeins. Kristberg Óli fór til Vestmannaeyja í 4 daga í lok júní til að keppa á Shellmótinu sem er knattspyrnumót fyrir 6. flokk eða 8-10 ára gutta. Kristberg spilaði með liði 4 hjá HK eða D-liðinu eins og það hefur heitið í gegnum knattspyrnusöguna.

Það er skemmst frá því að segja að strákarnir í liði 4 hjá HK stóðu sig eins og hetjur, þrátt fyrir sjóveiki á útleið og erfiðan fyrsta dag þar sem hlutirnir voru ekki að ganga upp hjá þeim.

Strákarnir héldu áfram að hafa gaman að hlutunum og uppskáru á endanum þar sem þeir unnu lið 5 hjá ÍBV í úrslitaleik um Heimaklettsbikarinn og komu því með dollu heim til að setja í skápinn í Fagralundi.

DSC00092

Hér er Kristberg Óli með dolluna.

DSC00095

Og dollan fer á loft.

 

End mont


Afmæli!

Á þessum degi árið 2001 gengum við Berglind í það heilaga og eigum við því 7 ára brúðkaupsafmæli í dag.

Að hugsa sér, gift í 7 ár og búin að vera saman í 10. Hverjum hefði dottið í hug að Begga ætti eftir að umbera mig í svona langan tíma......ótrúlegt.

Til hamingju með daginn Begga og Villi.


Kominn heim

Jæja þá er maður loksins kominn heim og útlegðinni lokið í bili.  Ég verð að vísu ekki í neinu fríi því ég fer á þyrluvaktina strax á mánudagsmorgun.

Við ætluðum svo að halda upp á 5 ára afmæli Dagný Heiðu en systurnar lögðust í hlaupabólu á fimmtudaginn svo fresta þurfti öllum viðburðum og aðgerðum.

DSC00168Guðný Sunna

 

DSC00165Dagný Heiða

Ef myndirnar hafa heppnast þá sést hvernig þetta lítur út hjá stelpunum, það er erfitt að horfa upp á svona lítinn kropp alsettann bólum og ekkert hægt að gera.

En svo eru skemmtileg augnablik líka, ég verð að láta fylgja með eina mynd af Bjarka Frey þar sem hann er alveg búinn eftir allt páskaeggjaátið.

DSC00162Bjarki Freyr

Þetta er ótrúlega fyndið, hann lognaðist útaf með konfektmola í munninum. Þetta er ákveðni af bestu sort, það skal ENGINN borða mitt nammi.

En þar til næst, hafið það gott


Aftur á sjóinn!

Það eru fréttir af mér. Ég mun taka 6 vikna pásu úr fluginu og skella mér einn túr á danska varðskipið Vædderen. Þetta er hluti af samvinnuverkefni Landhelgisgæslunnar og dönsku strandgæslunnar. Munum við eyða einum túr þarna um borð ég og Rögnvaldur háseti á Tý. Munum við vera á Grænlandsmiðum þennan tíma og enda túrinn á sameiginlegri æfingu með US coast guard í Boston.

Við förum á sunnudaginnn og áætlum að koma aftur í kringum 27. mars. Ég veit ekki hvernig nettengingarnar eru um borð en ég reyni að setja eitthvað inn.

Vona bara að Beggu gangi vel að hafa hemil á ungunum á meðan.


Höfundur

Vilhjálmur Óli Valsson
Vilhjálmur Óli Valsson

Tuðari af Guðs náð

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband