9.2.2008 | 11:23
Hvers vegna kostar íþróttaiðkun barna svona mikið?
Ég bý svo vel að eiga fjögur yndisleg börn. Fjögur börn þar sem það elsta er einungis 8 ára. Þetta þýðir að komnar eru í spilið tómstundir og áhugamál, sem er nú barasta ekkert annað en heilbrigt og gott þar sem um er að ræða í flestum tilfellum eitthvað sem felur í sér hreyfingu.
Nema hvað að í miðjum skutlunum og æfingunum eru sendir gíróseðlar fyrir æfingagjöldum barnanna sem maður borgar svo bölvandi í hljóði. Nú og hvers vegna skyldi það vera? Ekki er það vegna þess að ég tími ekki að borga tómstundir undir börnin, mér bara blöskrar hvað ég er að borga mikið og fæ í rauninni lítið í staðinn. Hvað meina ég? Ég skal útlista þetta og vonandi sér einhver forsvarsmaður íþróttafélaga þetta og getur sagt mér hvað ég er í rauninni að borga fyrir.
Elsti strákurinn, 8 ára, æfir fótbolta með 6. flokki HK. Þetta eru 8-10 ára strákar og er u.þ.b. 40 stráka hópur að æfa að staðaldri. Ég er að borga 23000 krónur á ári í æfingagjöld og leggur Kópavogsbær 11000 krónur til félagsins á móti. Þetta gerir um 1,4 milljónir á ári fyrir félagið í beinar tekjur. Gjöldin felast væntanlega í þjálfaralaunum og einhverjum aðstöðukostnaði þó að ég viti ekki hver hann er, æft er eingöngu úti á sumrin, eðlilega, en núna fyrir áramót var ein æfing í viku úti og 2 inni í knattspyrnuhúsinu Fífunni. Núna eftir áramót eru 3 inniæfingar á viku, 2 í Fífunni og ein í nýja knattspyrnuhúsinu Kórnum. Alveg ásættanlegt fyrir þennan pening. Það er bara einn hængur á: Æfingarnar eru ýmist kl. 15 eða kl. 16 og ekki eru æfingarnar haldnar í hverfinu. Nei foreldrar þurfa að gjöra svo vel og taka sér frí úr vinnu til að keyra börnunum til æfinga, það eru einungis 15 kílómetrar í Kórinn, þetta er svipað og KR færi að æfa í Breiðholtinu. En æfingagjöldin í fótboltanum eru þolanleg fyrir 3 æfingar á viku allt árið.
Þá komum við að næsta barni hjá mér sem er 4. ára stúlka. Eins og stelpna er von og vísa þá vill hún vera hoppandi og skoppandi, farandi í handahlaup, splitt og spígat í tíma og ótíma þannig að mér verður illt af því að horfa á. Það lá því beinast við að keyra sem leið liggur upp í Versali á fimleikaæfingar hjá Gerplu. Þar er boðið upp á skemmtilegar æfingar fyrir krakkana einu sinni í viku, 50 mínútur í senn. Það sem stingur mann samt svolítið er að þau sem sjá um þjálfun barnanna er einn þjálfari sem mætir stundum (eftir áramót hefur hann mætt í annaðhvert skipti), með honum eru stúlkur sem hafa æft hjá félaginu í einhver ár og eru líklega að borga eitthvað af félagsgjöldunum sínum með því að vera þarna. Svo að lokum eru þarna nokkrir foreldrar sem hjálpa til af bestu getu. Ég hef það fyrir víst að einn pabbinn hafi náð að skrá dóttur sína gegn því að hann myndi verða hluti af þjálfarateyminu. En horfum aðeins framhjá þessu því ég ætlaði að tuða yfir hvað ég þarf að borga mikið fyrir þetta. Þar sem dóttir mín er ekki komin á grunnskólaaldur þá borgar bærinn ekki niður fyrir hana. Ég fékk því reikning fyrir áramót upp á 16400 krónur og annan núna í janúar upp á 21500 krónur, samtals eru þetta æfingagjöld upp á 37900 fyrir veturinn. Yfir veturinn eru u.þ.b. 30 æfingar. Ég er því að borga um 1300 krónur fyrir hverjar 50 mínútur. Það eru um 50 stelpur, 4-5 ára í þessum hóp sem þýðir að Gerpla tekur um 65000 krónur inn í tekjur fyrir hvert skipti og um 1,9 milljónir fyrir veturinn. Hvað á þetta eiginlega að þýða og í hvað fara þessir peningar eiginlega????
Forsvarsmenn í samfélaginu tala alltaf fyrir forvarnargildi íþróttastarfs og ætla ég alls ekki að þræta um það. Hitt er annað mál að hvernig stendur á þessu verði og afhverju koma yfirvöld þá ekki betur að þessu og hvers vegna er ekki greidd niður æfingagjöld fyrir börn á forskólaaldri? Ég sé fram á það eftir um 4-5 ár að vera með 4 börn í einhverskonar íþróttum eða tómstundum og mun þá greiða hátt í ein mánaðarlaun í æfingagjöld fyrir þau. Síðan verð ég að sjá hvort ég sé aflögufær um önnur mánaðarlaun til að borga öll mótsgjöldin, ferðakostnaðinn og búningana.
Ef einhver er til sem nennir að lesa þetta hefur skýringar á þessu þá má sá hinn sami endilega kommenta og upplýsa mig.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:38 | Facebook
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.