Hver er tilgangurinn?

Er það ekki stóra spurningin?

Mér finnst algerlega tilgangslaust að boða til kosninga ef sömu slóðarnir og sitja á þingi núna eru í framboði aftur. Það er ekki nóg að kjósa, við verðum að kjósa nýja einstaklinga á þing, einstaklinga sem hafa bæði hugarfar, kjark og kunnáttu til að koma okkur í gegnum þessa erfiðleika sem dynja á okkur.

Ég græði ekkert á því að kjósa á milli Þorgerðar, Gunnars, Ögmundar, Sivjar og Grétars Mar (Kraginn). Þetta lið er búið að fá tækifæri og klúðra því big time, allavega er ekkert í gangi sem segir að þetta fólk verðskuldi mitt traust og atkvæði.

Út með alla þá sem sitja að völdunum og nýtt blóð inn, hvernig svo sem það er framkvæmanlegt!


mbl.is Vilja kosningar í upphafi nýs árs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna ESB?

Ég hef verið að furða mig á ást stjórnmálamanna á ESB, sérstaklega undanfarnar vikur. Það er nefninlega svo að tvær stórar þjóðir innan ESB, Bretar og Hollendingar, hafa gert efnahagsástandið hér á landi enn erfiðara en það þarf að vera með skilningsleysi og beinum árásum á land okkar.

Þegar komið er svona fram við okkur meðan við erum utan sambandsins hvernig verður þetta eftir að Ísland er gengið í sambandið. Sanna ekki atburðir síðustu missera að ekkert er hlustað á okkur eða tekið tillit til okkar sjónarmiða og verðum við þá ekki bara einhver mjóróma rödd sem enginn mun taka mark á þegar á Evrópuþingið er komið?

Ég held að við ættum að horfa í fleiri áttir og skoða aðra möguleika áður en hlaupið er í fang ESB. Er t.d. ekki hægt að taka upp dollar alveg eins og evru? Afhverju hefur ekkert verið rætt um þann möguleika? Getur verið að ráðalausa fólkið í ríkisstjórn og þingi hafi einhverja aðra hagsmuni að leiðarljósi en okkar almennings?


mbl.is Framsókn flýtir flokksþingi og tekur fyrir tillögu um aðildarviðræður við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri grátur

Nú er ég búinn að vera frekar rólegur í tíðinni gagnvart ástandinu, þ.e. í skrifum. Ég hef frekar tuðað beint í fólki og er m.a. að gera frúnna vitlausa á þessu væli. Ég ætla því að setja nokkur orð hérna niður og fá smá útrás.

Í öllu því sem hefur gengið á síðustu vikurnar hefur maður furðað sig á mörgu og skilið ósköp lítið. Það sem stendur upp úr er þetta:

1. Samkvæmt hollenskum blaðamanni, sem kom í Silfur Egils í gær, þá hurfu 2 milljarðar evra eða 300 milljarðar króna, út úr Icesave á þessum tíma sem bankinn var opinn í Hollandi (ca. 6 mánuðir)!!!! og ekki virðast vera eignir í Hollandi upp í þessa upphæð.

2. Icesave í Bretlandi virðist þó hafa eignir á bak við sig hvað svo sem verðmæti þessara eigna kann að vera í dag.

3. Allir 3 bankarnir virðast hafa farið langt fram úr sér í getu og siðferðilegum skyldum ásamt því að stóru fjárfestarnir virðast hafa verið í pappírsviðskiptum til að ná fjármunum út úr bönkunum.

4. Allir stjórnmálamenn sem talað hefur verið við virðast ekki hafa haft hugmynd um að neitt óeðlilegt hafi verið í gangi í fjármálaheiminum þó svo að margir þeirra komi úr þessum geira, m.a. hafi setið í stjórnum fyrirtækja og þegið laun fyrir að vita ekkert.

Það sem við Íslendingar verðum að gera núna er að sækja þessa fjárglæframenn til saka, taka af þeim allar eignir og flengja þá svo opinberlega.

Stjórnmálamennina verðum við að taka og skipta út, kosningar eru ekki nóg, það verður að endurnýja fólkið á þessum listum. Við verðum sem sama skít í sama klósetti ef kosið verður milli flokkanna með sama fólki í framboði. Allar fréttir hafa bent á óeðlilegar tengingar milli stjórnmaálamanna og fjárglæframanna. Staðan hjá mér a.m.k. er þannig að ég get ekki hugsað mér að kjósa neitt af þessu liði, þeir sem eru með stjórnartaumana í höndunum eru ekki að gera neitt og þeir sem eru í stjórnaraðstöðu eru ekki með neinar lausnir, aðeins það að stjórnin sé ekkert að gera.

Að lokum vil ég bara segja það að þegar ég tek lán þá les ég smáa letrið og þegar íslenska ríkið tekur lán þá er ég að taka lán og ég á heimtingu á því að fá að vita um alla skilmála, hvað sem hver tautar og raular. Það er bara vanvirðing við þjóðina að segja: ykkur kemur það ekkert við.


Hvað með stýrivexti??

Þá hlýtur næsta frétt að verða um hækkun stýrivaxta í viðkomandi löndum upp í a.m.k. 18% er það ekki?

Skrýtið, ég man ekki eftir þannig fréttum frá Úkraínu um daginn.

Skyldu vera hæfari einstaklingar við stjórnvölinn þar en hér? Er von að spurt sé?


mbl.is Ungverjum tryggt lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Coldplay

Það er kominn tími til að gleyma allri efnishyggju. Sökkvið ykkur í tónlist Coldplay. Frábærir textar og yndislegar melódíur.

Njótið og spáið í textanum.


Það var einmitt svo.

Auðvitað er þetta ekki þér að kenna Björgólfur minn. Þú ert núna, sem stundum áður, fórnarlamb siðspilltra og vanhæfra stjórnmálamanna er það ekki??

Þessir vanhæfu menn gáfu þér Landsbankann með óstjórn sinni og ætli það sé ekki fyrsta skrefið sem varð til þessa hruns sem er í gangi. Ég gæti sem best trúað því. Það er örugglega vegna 63 sálna á þingi sem þú steyptir Landsbankanum í mörg hundruð milljarða skuld sem ég þarf að greiða hluta af núna.

Segðu okkur þá annað, svona fyrst þú ert byrjaður að grenja yfir þessari óréttlátu meðferð karlinn minn, hvert fóru allir peningarnir sem lagðir voru inn á Icesave í Bretlandi?? Getur verið að þú, sonurinn og einhverjir útvaldir viðskiptafélagar hafi fengið breskan sparnað greiddan beint inn á prívatreikninga svo lúxuslífið geti haldið áfram? Þetta eru bara litlar spurningar sem koma upp í kollinn. Það getur verið að ég sé bara svona illa gefinn, en það lítur bara út fyrir að þú og þínir félagar séu bara ótýndir þjófar og sá stimpill mun verða á sínum stað á meðan ekki koma trúverðugar skýringar frá ykkur eða þið sýnið þann manndóm að koma með allar eigur ykkar, afhenda þær ríkinu(almenningi) og biðjast opinberlega afsökunar á hátterni ykkar og gjörðum.

 


mbl.is Krónan stærsta vandamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slátur

Í annað skipti síðan við hjónin hófum búskap var tekið slátur. Í þetta sinn voru tekin 5 slátur og keyptar svo auka 3 vambir til að gera meira af lifrarpylsu. Það verður að segjast að þetta er svolítið tímafrekt í undirbúningi en er samt miklu minna mál en ég hélt.

Fékk ég móður mína til að sníða fyrir mig vambirnar sem ég fór svo með heim og hjónakornin saumuðu svo saman á kvöldin eftir að börnin voru komin í svefn og var þessu dreift á 3 kvöld þar sem vinnuplanið bauð ekki upp á að gera allt í einum rykk. Var hráefnið svo allt hrært saman og sett í vambirnar undir öruggri handleiðslu mömmu, en sá háttur var hafður á til að gamlir vinnuferlar og uppskriftir glatist ekki en þetta tilbúna  slátur er einfaldlega ekki mjög gott miðað við það sem heima er gert. Það vantar t.d. allan mör í slátrið í dag og svo setjum við rúsínur í blóðmörinn en það gefur skemmtilegt auka bragð.

Þetta er fín búbót, 5 slátur gefa um 10-12 máltíðar og kostar um 5 þúsund kall og svo er bara skemmtilegt að vinna þetta. Ég hlakka til þegar krakkarnir verða aðeins stærri og geta tekið þátt.


Auðvitað

Það hlaut að koma að því.

Þetta er bara fyrsti tónn í væli vinnuveitanda. Það kemur á daginn að það eru skurðgrafarnir, þ.e. hinn almenni verkamaður sem mun koma til með að borga alla súpuna. Þessir karlar (og konur) sem sitja í stjórn fyrirtækja sjóða virðast ekki kunna neitt annað en að segja að ræfillinn sem hefur 150 þúsund á mánuði er að sliga þjóðfélagið.

Á sama tíma situr þetta fólk í fjölda stjórna og ráða og þiggur laun á mörgum vígstöðvum. Hvað skyldi Helgi Magnússon t.d. vera með í laun og ætli hann sé tilbúinn að fara í sama launaflokk og 90% af því verkafólki sem hann er að tala um er á? Nei ætli það, en það setur samfélagið endanlega á hausinn að hækka 150 þúsund kallinn um 4500 krónur á mánuði. Seðlabankastjóri talaði á sama hátt í síðustu viku þegar hann sagði að nú þyrfti að endurskoða kjarasamninga. Hann getur það, hann hefur ekki tapað eftirlaununum sínum og hann er ennþá með 15 milljónir (a.m.k.) í árslaun.

Ég held að SA og SI ættu frekar að einbeita sér að kenna félagsmönnum sínum grunninn í viðskiptafræði, þ.e. að ekki er ráðlegt að hafa útgjöld hærri en tekjur. Það er a.m.k. þannig í mínum heimilisrekstri að þegar ég stend ekki við skuldbindingar mínar þá kemur það mjög fljótlega í hausinn á mér aftur.

Það er kominn tími til að vinnuveitendur axli sína ábyrgð og viðurkenni að slæmur rekstur er ekki launþegunum að kenna.


mbl.is Varar við innistæðulausum launahækkunum á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðmætamat

Þetta orð kom upp í hugann um daginn þegar fréttir bárust af kæru Árna Johnsen á hendur Agnesi Bragadóttur blaðamanni. Hann fer nefninlega fram á 5 milljónir í skaðabætur fyrir það að kerlingin kallaði hann "dæmdan glæpamann, mútuþægan og stórslys". Ég veit fyrir það fyrsta ekki af hverju Árna ætti að sárna svona því að þó hann hafi fengið uppreisn æru þá er hann samt dæmdur glæpamaður, það verður ekki tekið af honum að dóminn fékk hann hvort sem búið er að sitja af sér eður ei.

Á sama tíma koma fréttir af fórnarlömbum kynferðisbrota þar sem gerandinn er dæmdur sekur, þá eru bæturnar sem fórnarlömbin fá einhverjir hundraðkallar, sbr. dóminn yfir manninum sem misnotaði öll stúlkubörn sem hann náði í hvort sem það voru dætur hans eða einhverjar aðrar.

Ef Árna verður dæmdur sigur í þessu máli þá er tiltrú dómstólana farin veg allrar veraldar og þá kemur stóra spurningin upp: Hvert er verðmætamat okkar farið???

Það er alveg skýrt hjá mér, verðmætin mín eru eiginkonan og börnin, ef ég hefði þau ekki  ætti ég ekkert. Vei þeim sem reynir að taka þau frá mér eða gera þeim mein.

Þeir sem gera eitthvað á hlut barna, hvort sem það er kynferðis- eða annað ofbeldi þá er viðkomandi búinn að missa tilveru- og eignarétt sinn og ætti að verða dæmdur til að leggja til allt sitt til handa fórnarlambi/lömbum sínum það sem eftir er ævi viðkomandi.

Og Árni og aðrir sem eru svona viðkvæmir fyrir raunveruleikanum ættu að sjá sóma sinn í að sætta sig við lífið og tilveruna eins og það er.


Gleði og hamingja

Það er kominn tími til að setja upp sparibrosið. Ég er kominn í sumarfrí!!!! Húrra, loksins, loksins segi bæði ég, frúin og ekki síður börnin. Pabbi getum við þá farið ÖLL saman í sund og gert eitthvað skemmtilegt? fékk ég frá einu af börnunum í gær!!

Ójá það held ég nú. Það er búið að slökkva á vinnusímanum og verður ekki kveikt á honum aftur fyrr en 1. september.

Veislan byrjaði strax í gær, Kristberg Óli, mitt elsta barn, átti 9 ára afmæli og fékk hann því að ráða ÖLLU því sem gert var í gær, þ.e. eftir að ég kom úr vinnunni um hádegisbil. Eftir að hann var vakinn með pökkum þá heimtaði hann að fara í húsdýragarðinn og fór familían þangað í aldeilis frábæru veðri og áttum þar stórkostlegan tíma, bæði vegna þess að langt er síðanvið gerðum eitthvað öll saman og vegna þess að mjög fáir voru í garðinum og þurfti því ekki að standa í neinum biðröðum og/eða troðningi.

Þetta var góð byrjun á fríi og vonandi verður allur þessi mánuður í þessum gæðaflokki. Berglind er að vísu að vinna fram á fimmtudag en á föstudag leggjum við land undir fót og skellum okkur norður í Fnjóskadal þar sem við ætlum að vera í bústað í viku og svo í heimsókn í 2-3 daga til Húsavíkur.

Njótið þið helgarinnar og farið varlega í öllum ferðum og gjörðum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vilhjálmur Óli Valsson
Vilhjálmur Óli Valsson

Tuðari af Guðs náð

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 35087

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband