2008

Þetta var vægast sagt viðburðarríkt ár. Þrátt fyrir að ekki hafi fæðst barn á árinu sem er frá mér komið er það samt eitt af þeim skemmtilegustu sem ég hef lifað. Hvað varðar vinnu allavega. Ég held ég hafi aldrei átt jafn fjölbreitt ár vinnulega og 2008 þó að ekki hafi verið skipt um vinnuveitanda á þessu tímabili.

Ég var einhvern tíma búinn að segja að þetta væri endastöðin mín, enda hef ég ekki tollað lengur en 2 ár hjá hverju fyrirtæki fram að þessu. og viti menn, það er komið á þriðja ár og hér er ég enn hjá Gæslunni og þykir starfið ennþá spennandi og krefjandi.

Ég sóttist eftir og fékk að fara túr á danska varðskipinu Vædderen í febrúar og mars en þar fékk ég að eyða 40 dögum í ferð sem var ævintýri frá upphafi til enda. Þar fékk ég nýja og öðruvísi sýn á starfið sem ég er að sinna, en ég fékk í þessari ferð að sinna öllum störfum sem kollegar mínir í Danmörku sinna. Þá var skemmtilegt að komast í siglingar í ís, en á þessum árstíma kemst ekkert skip að austurströnd Grænlands vegna íss. En það var semsagt verið við gæslu úti fyrir austurströnd Grænlands og svo á vesturströndinni í framhaldi. Þar fékk ég að koma í land á nokkrum stöðum og meðal annars að eyða tæpri viku í Nuuk sem var mjög skemmtilegt. Það var mjög fróðlegt að skoða sig um þar og stúdera mannlífið en ekki erum við Íslendingar nægjusamir miðað við nágranna okkar í vestri. Túrinn var svo endaður í Boston þar sem smá innsýn var fengin í störf bandarísku strandgæslunnar. Það er MJÖG öðruvísi svo ekki sé meira sagt.

Eftir þessa ferð tók við hefðbundin vinna, æfingar, gæsla, sjúkraflutningar og bjarganir á þyrlu. Óhætt er að segja að 2008 hafi verið rólegt ár hjá mér hvað útköll varðar en ég fór ekki í nema 14 á móti rúmum 40 árinu áður. Þeim mun meira fékk ég að fljúga til æfinga og gæslu á árinu.

Sumarfríið var tekið í ágúst og fórum við fjölskyldan í sumarbústað á Illugastöðum í Fnjóskadal þar sem við vorum í góðu yfirlæti í viku. Ekki var neitt Mallorca veður en fríið og tilbreytingin voru nóg til að við vorum öll (held ég) endurnærð. Í kjölfarið héldum við til Húsavíkur þar sem flutt var inn á stóra bróður í nokkra daga og þeim verið til ama og leiðinda eins og kostur var. Whistling Enn áttum við tíma eftir í fríi þannig að síðustu vikuna í ágúst fórum við í bústað í Grímsnesinu og vorum þar í grenjandi rigningu 90% af tímanum. Þó náðum við að tína nokkra lítra af bláberjum og var svo sultað þegar heim var komið.

Eftir fríið tók vinnan við aftur ásamt skólanum, en ég var búinn að vera að safna einingum í fjarnámi með stúdentspróf í huga. Sá ég fram á að geta klárað þennan áfanga í desember og stefndi ég ótrauður á það. Smá strik setti í reikninginn að starfsemi stofnunarinnar minnar dróst saman og í kjölfarið var starfsmönnum demt á hvert námskeiðið á fætur öðru, sem gerði okkur ekkert nema gott við þær aðstæður sem voru á þeim tíma. En þetta hafðist samt og útskrifaðist ég 19. desember sem stúdent frá FÁ.

Að lokum má segja frá að í haust datt ég í einhvern heilsupakka og byrjaði að hlaupa út um víðan völl, en ég byrjaði á þessari vitleysu eftir að þrekpróf voru haldin hjá LHG og eftir þaá stuttu vegalengd var ég hér um bil búinn að æla, svo lélegt var ástandið á mér. Ég er búinn að halda mig við þetta sport og hef smásaman verið að lengja í þessu hjá mér og á gamlársdag tók ég þátt í mínu fyrsta keppnishlaupi (síðan ég var 10 ára eða eitthvað) en þetta var 10 kílómetra hlaup og hafði ég aldrei hlaupið svona langt áður. Stefndi ég á að klára þetta með höfuðið hátt á innan við klukkutíma en gerði talsvert betur og fór vegalengdina á 49 mínútum og 10 sekúndum. Þetta hleypir meiri hörku í mig og hef ég sett mér skýr markmið á þessu sviði fyrir árið 2009.

Til þess að veita mér aðhald þá eru markmiðin þessi: Að fara 10 km á innan við 45 mín, 7 km á innan við 30 mín, 3,2 km á innan við 12 mín og svo ætla ég að fara hálft maraþon (21,1 km) í ágúst á innan við 1 klst 45 mín.

Fleira var ekki merkilegt á síðasta ári í mínu lífi, ég nenni ekki að bæta ástandinu á Íslandi inn í þetta, en allt sem skiptir máli er hjá mér og þau eru öll hress. Vonandi verður árið 2009 jafngott ár fyrir mig í því sem máli skiptir og 2008 var.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: JEG

Knús og kveðja kæri frændi.  Þú ert auðvitað langflottastur. 

JEG, 20.1.2009 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vilhjálmur Óli Valsson
Vilhjálmur Óli Valsson

Tuðari af Guðs náð

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband