Kominn heim

Jæja þá er maður loksins kominn heim og útlegðinni lokið í bili.  Ég verð að vísu ekki í neinu fríi því ég fer á þyrluvaktina strax á mánudagsmorgun.

Við ætluðum svo að halda upp á 5 ára afmæli Dagný Heiðu en systurnar lögðust í hlaupabólu á fimmtudaginn svo fresta þurfti öllum viðburðum og aðgerðum.

DSC00168Guðný Sunna

 

DSC00165Dagný Heiða

Ef myndirnar hafa heppnast þá sést hvernig þetta lítur út hjá stelpunum, það er erfitt að horfa upp á svona lítinn kropp alsettann bólum og ekkert hægt að gera.

En svo eru skemmtileg augnablik líka, ég verð að láta fylgja með eina mynd af Bjarka Frey þar sem hann er alveg búinn eftir allt páskaeggjaátið.

DSC00162Bjarki Freyr

Þetta er ótrúlega fyndið, hann lognaðist útaf með konfektmola í munninum. Þetta er ákveðni af bestu sort, það skal ENGINN borða mitt nammi.

En þar til næst, hafið það gott


Bless Grænland.

Jæja þá er komið að því. Klukkan eitt eftir hádegi, að staðartíma, yfirgaf HDMS Vædderen Narssarssuaq í síðasta skipti í þessari ferð. Nú er ferðinni heitið hér útfyrir ísinn til æfinga, bæði með öðru gæsluskipi og svo á að prófa vopnastýringakerfið og þjálfa mannskapinn í beitingu skotvopna þetta verða örugglega skemmtilegir 3 dagar sem eru að bresta á.

IMG_2355Þetta er rétt utan við Narssarsuaq.

Þetta er búinn að vera stórkostlegur tími sem ég hef átt hér um borð við strendur Grænlands og í höfnum landsins, lífið um borð er búið að vera mjög lærdómsríkt og heimsóknirnar í þetta stórbrotna land með lágvaxna fólkinu hafa svo sannarlega komið mér á óvart, bæði með fegurð landsins og hversu lítill hluti þess er byggilegur. Ég er svo uppfullur af skemmtilegum minningum, sem ég ætla að reyna að koma frá mér þegar ég er kominn heim, að ég brosi mikið inni í mér og tel að þessi ferð hafi bætt mig sem einstakling. Ég taldi mitt land vera fallegt en ég bara VERÐ að koma hingað að sumarlagi og sjá þetta einstaka land þegar minni hluti þess er hulinn snjó og ís. Þó það taki langan tíma að hlaða inn myndum þá bara verð ég að sýna ykkur þetta og leyfa ykkur að njóta þessa með mér þangað til ég get sett inn albúm með fleiri myndum.

Stundum þurfti að ferðast á ísnumFerðast á ís.

Eftir æfingarnar er ferðum okkar heitið vestur um haf og alla leið til lands draumanna, það er til Boston þar sem taka við samæfingar í leit og björgun með bandarísku strandgæslunni OG það sem verður kannski erfiðara nefninlega verslun, verslun og verslun þar til ekkert verður eftir í búðunum. Mun ég svo fara af skipinu þar og fljúga með hundleiðum heim til fjölskyldu minnar sem ég er farinn að sakna meira en orð fá lýst.

Ég ætla ekki að skrifa aftur fyrr en ég er kominn heim en skila kærri kveðju frá Vædderen. Farið öll varlega.

Tekið í Nuuk


Bíóferð og fleira skemmtilegt.

Ég gerði svolítið merkilegan hlut á föstudaginn sl. Ég skellti mér í bíó og sá úrvalsmyndina American Gangster. Það er svosem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ég hef ekki farið í bíó, nema til að sjá barnamyndir, síðan Hringadróttinssaga-Hilmir snýr aftur var í sýningu OG ég skellti mér með 2 nýjum dönskum vinum mínum í bíóhúsið í NUUK.

Það verður að segjast að það var svolítið öðruvísi að fara í bíóhús þarna, við vorum svolítið snemma í því, keyptum okkur miða, sem til talsverðrar undrunar var ódýrari en á Íslandi, hann kostaði 60 krónur danskar eða um 800 krónur íslenskar. Hins vegar vorum við heppnir með mynd því aðeins ein sýning er á kvöldi og hver mynd aðeins sýnd í 5-10 daga. Það er stór og fínn salurinn í þessu húsi með þægilegum sætum og eru þau númeruð og fær maður að velja sér sæti þegar miðinn er keyptur, eitthvað sem mætti alveg taka upp heima. Það var MJÖG þægilegt að geta sest niður og horft á eina mynd á þess að ljósin væru kveikt og allir ryddust út með hávaða og látum til að bæta í poppskálarnar sínar því ekkert var hléið til að angra fólk.

Það var samt annað sem angraði mig. Innfæddir, þ.e. Grænlendingar voru á stanslausu rápi út og inn til að gera eitthvað sem ég ekki veit hvað er, en þetta byrjaði strax og auglýsingar voru að baki og hélt áfram alveg fram að lokaatriði myndarinnar. Þetta þótti mér merkilegt og skrýtið að sjá því ég er nú þannig að þegar ég fer í bíó þá fer ég til að halla mér aftur og njóta myndarinnar.

Eftir myndina þegar klukkuna var farið að halla í miðnætti gengum við í gegnum miðbæinn og skoðuðum mannlífið eftir því sem kostur er, en það var komið um 18 stiga frost og reyndum við því að ganga frekar rösklega áleiðis að skipinu, en höfnin er í um 25 mínútna göngufæri frá téðum miðbæ.

Þetta var skemmtileg upplifun og gaman að sjá aðeins öðruvísi hegðunarkúltúr en er heima, hér kunna allir að bíða þolinmóðir í röð eftir að að þeim komi og ekki varð ég var við leiðindi í bænum, einstaka fullur einstaklingur á ferðinni, en almennt virtist fólk hafa það gaman á föstudagskvöldi í NUUK og er ég einn af þeim.


Einn ágætur

Þeir eru ekki þekktir fyrir að vera mjög leiðinlegir Danirnir. Þessu til sönnunar rakst ég á einn heimatilbúinn í brúnni á herskipinu og læt hann flakka hérmeð.

The captain is in his chair when his staff comes in and ask him what they should do next. The captain is using google earth to decide.

Sir, where are we going now? I think, he says and points to the screen, here to Nuuk, the capital of Greenland.

Nuuk the capital of Greenland, sir???

Definatly, yes Nuuk the capital of Greenland.

Aye, aye sir, right away, nuke the capital of Greenland.

2 officers walk purposefully away from the group and alarm sounds.

.............................

Mission complete sir.  What mission??

To nuke the capital of Greenland sir!!!!

Oh, have we arrived already?

 No sir, we have nuked it as you ordered.

WHAT, no I said we are going to Nuuk, the capital of Greenland.

Yes sir, we did.

Sigh...oh dear.......well done.....carry on.

 

Þetta ætti að kenna okkur að vera með framburðinn á hreinu til að fyrirbyggja miskilning sem þennan.

Kveðja


Með Dönum við Grænland

Jæja er ekki best að leyfa fólki aðeins að vera með í þessu. Tengingin hér um borð í HDMS Vædderen / F359 er að vísu ekki upp á marga fiska eða 512 kb og verður það að duga fyrir alla þá 56 sem eru í áhöfn skipsins og svo starfsemi skipsins líka. En látum vaða samt.

Byrjað var að þjálfa áhöfnina í öllum mögulegum verkefnum fyrstu 3 daga ferðarinnar og var það barasta gert í bakgarði okkar, Faxaflóa. Ekki byrjaði þetta vel hjá mér en ég gleymdi rafmagnssnúrunni fyrir tölvuna og ekki er hægt að lifa án hennr. En sem betur fer hefur maður sambönd og snillingarnir í flugdeildinni komu í heimsókn á TF-EIR og færðu mér kapal svo hægt væri að skrásetja það sem framundan var og setja myndirnar á vísan geymslustað. Þá var haldið á Grænlandssund þar sem skoðaðir voru nokkrir rækjutogarar sem voru að veiða langt inn í ísnum sem þarna er.

IMG_2113

Það gat verið erfitt að komast á milli í ísnum. 

Þá var mér boðið af skipherranum með í útsýnisflug yfir austurströnd Grænlans og var flogið yfir Angmagssaliq og Kulusuk og nágrenni, alveg hreint stórkostlegur túr.

IMG_2171

Kulusuk.

Eins og sést þá er Kulusuk bara smábær, þetta eru nánast öll húsin í bænum og það má segja það sama um alla þá bæi sem ég hef séð hérna en þeir eru: Angmassaliq, Kulusuk, Narssarsuaq, Grönnedal og svo erum við núna í höfuðborginni Nuuk en hér búa um 70% fólksins á Grænlandi.

Eftir að hafa komið á þessa staði þá kann ég betur að meta okkar litla land og hversu gott við höfum það þar. Á sama tíma dáist ég af fegurð þessa lands og dáist að hörku þeirra sem byggja það. Það er alveg örugglega ekki öllum gefið að búa við þessar aðstæður, allt ísi lagt og til að komast ferða sinna verða menn að hafa snjósleða, fjórhjól eða hundasleða. Svo er líka SKÍTAKULDI á þessum slóðum, meðalhitastigið er búið að vera í kringum 15 gráður í mínus. Og trúið þið mér það er ekki neitt sérstaklega gott fyrir eyrun eða þá hluta líkamans sem ekki eru huldir fatnaði.

En þar sem það er búið að taka mig góðan part úr deginum að setja þetta inn þá ætla ég ekki að hafa þetta lengra að sinni og mun ég ekki setja fleiri myndir inn fyrr en ég er kominn heim aftur en þar er úr nægu að velja, þetta verða væntanlega eitthvað um 1000 myndir sem teknar eru í ferðinni.

Bestu kveðjur til ykkar sem lítið hérna inn úr grænlenskum fimbulkulda.


Aftur á sjóinn!

Það eru fréttir af mér. Ég mun taka 6 vikna pásu úr fluginu og skella mér einn túr á danska varðskipið Vædderen. Þetta er hluti af samvinnuverkefni Landhelgisgæslunnar og dönsku strandgæslunnar. Munum við eyða einum túr þarna um borð ég og Rögnvaldur háseti á Tý. Munum við vera á Grænlandsmiðum þennan tíma og enda túrinn á sameiginlegri æfingu með US coast guard í Boston.

Við förum á sunnudaginnn og áætlum að koma aftur í kringum 27. mars. Ég veit ekki hvernig nettengingarnar eru um borð en ég reyni að setja eitthvað inn.

Vona bara að Beggu gangi vel að hafa hemil á ungunum á meðan.


Nútíma pólitík

Hef verið að velta fyrir mér, í ljósi atburða í borginni síðustu 4 mánuði, hvað er það sem knýr stjórnmálamennina áfram? Er það hugsjón fyrir betra samfélagi og betri borg eða er það hugsjónin sem virðist vera orðin mikilvægari en þessar áðurnefndu þ.e. hvað get ég gert fyrir mig og þá sem standa mér næst?

Án þess að fara út í atburðarrásina, það hefur nóg verið skrifað um hana á öðrum síðum, þá kemur þetta allt saman hálf furðulega fyrir sjónir allavega ef maður gerir þá sjálfsögðu kröfu að þetta fólk vinni af heilindum fyrir okkur. Núna er oddviti Sjálfstæðisflokksinns búinn að ljúga að öllum sem geta heyrt í honum í fulla 4 mánuði og ekki er ennþá búið að bola honum í burtu eða hann búinn að sjá sóma sinn í að pakka saman og fara heim sjálfur. Nei, ætli hann bíði ekki nógu lengi til að hann fái biðlaun út kjörtímabilið sem formaður borgarráðs. Bak við hann bíða svo erfðaprinsarnir og prinsessurnar eftir því að komast í þessar launuðu stöður sem fylgja því að vera oddviti stóra flokksins.

Það er samt staðreynd að þetta fólk, Gísli Martinn, Hanna Birna, Júlíus Vífill, Kjartan og hinir minni spámennirnir eru ekki hótinu betri, þau "fylkja" sér af "einhug" á bak við Vilhjálm og með því halda þau áfram að skíta, ekki bara upp á bak, heldur alla leið upp á hnakka með áðurnefnda von í huga.

Ef við lítum svo yfir girðinguna þá sjáum við ekki betri hluti þar, Dagur, Svandís, Margrét og Björn, nei ég meina Óskar (Björn hætti víst þegar launuðu stöðurnar fóru frá honum), eru í alveg sama leik, hver og einn vill moka sem mestu undir rassgatið á sjálfum sér og grenja svo þegar mótherjarnir beita sömu brögðum við að útvega sér peningastöðunum.

 Við eigum betra skilið.


Hvers vegna kostar íþróttaiðkun barna svona mikið?

Ég bý svo vel að eiga fjögur yndisleg börn. Fjögur börn þar sem það elsta er einungis 8 ára. Þetta þýðir að komnar eru í spilið tómstundir og áhugamál, sem er nú barasta ekkert annað en heilbrigt og gott þar sem um er að ræða í flestum tilfellum eitthvað sem felur í sér hreyfingu.

Nema hvað að í miðjum skutlunum og æfingunum eru sendir gíróseðlar fyrir æfingagjöldum barnanna sem maður borgar svo bölvandi í hljóði. Nú og hvers vegna skyldi það vera? Ekki er það vegna þess að ég tími ekki að borga tómstundir undir börnin, mér bara blöskrar hvað ég er að borga mikið og fæ í rauninni lítið í staðinn. Hvað meina ég? Ég skal útlista þetta og vonandi sér einhver forsvarsmaður íþróttafélaga þetta og getur sagt mér hvað ég er í rauninni að borga fyrir.

Elsti strákurinn, 8 ára, æfir fótbolta með 6. flokki HK. Þetta eru 8-10 ára strákar og er u.þ.b. 40 stráka hópur að æfa að staðaldri. Ég er að borga 23000 krónur á ári í æfingagjöld og leggur Kópavogsbær 11000 krónur til félagsins á móti. Þetta gerir um 1,4 milljónir á ári fyrir félagið í beinar tekjur. Gjöldin felast væntanlega í þjálfaralaunum og einhverjum aðstöðukostnaði þó að ég viti ekki hver hann er, æft er eingöngu úti á sumrin, eðlilega, en núna fyrir áramót var ein æfing í viku úti og 2 inni í knattspyrnuhúsinu Fífunni. Núna eftir áramót eru 3 inniæfingar á viku, 2 í Fífunni og ein í nýja knattspyrnuhúsinu Kórnum. Alveg ásættanlegt fyrir þennan pening. Það er bara einn hængur á: Æfingarnar eru ýmist kl. 15 eða kl. 16 og ekki eru æfingarnar haldnar í hverfinu. Nei foreldrar þurfa að gjöra svo vel og taka sér frí úr vinnu til að keyra börnunum til æfinga, það eru einungis 15 kílómetrar í Kórinn, þetta er svipað og KR færi að æfa í Breiðholtinu. En æfingagjöldin í fótboltanum eru þolanleg fyrir 3 æfingar á viku allt árið.

Þá komum við að næsta barni hjá mér sem er 4. ára stúlka. Eins og stelpna er von og vísa þá vill hún vera hoppandi og skoppandi, farandi í handahlaup, splitt og spígat í tíma og ótíma þannig að mér verður illt af því að horfa á. Það lá því beinast við að keyra sem leið liggur upp í Versali á fimleikaæfingar hjá Gerplu. Þar er boðið upp á skemmtilegar æfingar fyrir krakkana einu sinni í viku, 50 mínútur í senn. Það sem stingur mann samt svolítið er að þau sem sjá um þjálfun barnanna er einn þjálfari sem mætir stundum (eftir áramót hefur hann mætt í annaðhvert skipti), með honum eru stúlkur sem hafa æft hjá félaginu í einhver ár og eru líklega að borga eitthvað af félagsgjöldunum sínum með því að vera þarna. Svo að lokum eru þarna nokkrir foreldrar sem hjálpa til af bestu getu. Ég hef það fyrir víst að einn pabbinn hafi náð að skrá dóttur sína gegn því að hann myndi verða hluti af þjálfarateyminu. En horfum aðeins framhjá þessu því ég ætlaði að tuða yfir hvað ég þarf að borga mikið fyrir þetta. Þar sem dóttir mín er ekki komin á grunnskólaaldur þá borgar bærinn ekki niður fyrir hana. Ég fékk því reikning fyrir áramót upp á 16400 krónur og annan núna í janúar upp á 21500 krónur, samtals eru þetta æfingagjöld upp á 37900 fyrir veturinn. Yfir veturinn eru u.þ.b. 30 æfingar. Ég er því að borga um 1300 krónur fyrir hverjar 50 mínútur. Það eru um 50 stelpur, 4-5 ára í þessum hóp sem þýðir að Gerpla tekur um 65000 krónur inn í tekjur fyrir hvert skipti og um 1,9 milljónir fyrir veturinn. Hvað á þetta eiginlega að þýða og í hvað fara þessir peningar eiginlega????

Forsvarsmenn í samfélaginu tala alltaf fyrir forvarnargildi íþróttastarfs og ætla ég alls ekki að þræta um það. Hitt er annað mál að hvernig stendur á þessu verði og afhverju koma yfirvöld þá ekki betur að þessu og hvers vegna er ekki greidd niður æfingagjöld fyrir börn á forskólaaldri? Ég sé fram á það eftir um 4-5 ár að vera með 4 börn í einhverskonar íþróttum eða tómstundum og mun þá greiða hátt í ein mánaðarlaun í æfingagjöld fyrir þau. Síðan verð ég að sjá hvort ég sé aflögufær um önnur mánaðarlaun  til að borga öll mótsgjöldin, ferðakostnaðinn og búningana.

Ef einhver er til sem nennir að lesa þetta hefur skýringar á þessu þá má sá hinn sami endilega kommenta og upplýsa mig.


Æfingar

Vorum á æfingu á TF-EIR á þriðjudaginn sl. Það var verið að byrja þjálfun á tveimur nýjum flugmönnum. Þetta var þeirra fyrsta flug og var áætlað að fljúga austur fyrir fjall og taka lendingaræfingar á Bakkaflugvelli, á Vestmannaeyjaflugvelli og Selfossflugvelli. Þegar við vorum að leggja í hann kom fyrirspurn um hvort við gætum svipast um eftir nokkrum hrossum sem höfðu hlaupist undan eigendum sínum upp á fjallið Þríhyrning í Fljótshlíð. Nú er það þannig að okkur í áhöfn þyrlnanna er ekki heimilt að tjá okkur um störf og verkefni okkar en í ljósi umræðu síðustu daga þá ætla ég að taka áhættuna og segja frá þessu. Þetta gerði æfinguna betri að vissu leyti, nýju flugmennirnir fengu aukna staðháttarþekkingu og Andri fékk lendingu á óhefðbundnum stað, þ.e. við félagsheimilið Goðaland. Aldrei stóð til að fara í neina smalamennsku en hrossin brugðust þannig við yfirfluginu að þau fóru á stökki niður snarbratta fjallshlíðina og á þann stað að hægt var að sækja þau með góðu móti. Þetta endaði semsagt á því að vera stórskemmtilegt æfingaflug.

Að öðru leyti ætla ég ekkert að tjá mig um neitt er varðar þetta flug frekar en önnur sem ég hef farið og mun fara í en tek það fram að mínar skoðanir endurspeglast af starfsferli mínum og ef menn vita það ekki þá er ég stýrimaður og hef starfað á sjó, meira og minna síðan 1987.


Eurovision

Mikill er kjánahrollurinn sem hríslast um mig á laugardagskvöldum er ég lími mig niður í sófann og drekk í mig (mis)hallærisleg lög og framkomur listamanna sem keppast um að komast í stóra partíið í sprengjugígunum í Serbíu í vor.

Þó svo að hrollur kjánans heimsæki mig um leið og þátturinn byrjar þá get ég ekki annað en hrifist, eins og flestir Íslendingar, af sjarmanum sem virðist fylgja þessari keppni. Í kvöld gerðist það t.d. að Páll Óskar sagði okkur hvaða lag fer til Serbíu. Að sjálfsögðu er það glimmerpoppið eftir Örlyg Smára í flutningi Eurobandsins. Getur ekki klikkað, frábær söngkona, mjög frambærilegur söngvari og flottar fáklæddar stelpur að sprikla í kringum þau.

Fyndið því að í næstu setningu kom að flutningur Dr. Spock á lagi Dr. Gunna væri ekkert minna en stórkostlegt. Ég verð hins vegar að vera sammála þessari fullyrðingu. Dr. Spock var svo fáránlegur á sviðinu að ekki var hægt annað en að hrífast með þessari vitleysu. OK, hattarnir með gulu fingrunum, það var búið að útskýra uppþvottahanskana, en hvað er málið með bleiku buxurnar og SKÓNA, SÁ EINHVER SKÓNA sem maðurinn var í? Nei ég get ekki ímyndað mér sýrutrippið sem var í gangi þegar þetta átfitt var valið. Hvað ætli Proppé hafi þurft að æfa sig lengi til að falla ekki um koll í hvert sinn er hann hreyfði sig. Það eitt og sér er nóg til að ég taki hatt minn ofan fyrir honum.

Ekki ætla ég að dæma um hvert þessara laga sem fara í úrslit eigi skilið að komast alla leið til Serbíu, ég hef ekki kosið einu sinni í vetur og ætla mér ekki að taka þátt á þann veginn, ég ætla bara að halla mér aftur í sófanum og njóta kjánahrollsins eitt vorið enn.

Góða skemmtun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vilhjálmur Óli Valsson
Vilhjálmur Óli Valsson

Tuðari af Guðs náð

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband