Færsluflokkur: Bloggar

Slátur

Í annað skipti síðan við hjónin hófum búskap var tekið slátur. Í þetta sinn voru tekin 5 slátur og keyptar svo auka 3 vambir til að gera meira af lifrarpylsu. Það verður að segjast að þetta er svolítið tímafrekt í undirbúningi en er samt miklu minna mál en ég hélt.

Fékk ég móður mína til að sníða fyrir mig vambirnar sem ég fór svo með heim og hjónakornin saumuðu svo saman á kvöldin eftir að börnin voru komin í svefn og var þessu dreift á 3 kvöld þar sem vinnuplanið bauð ekki upp á að gera allt í einum rykk. Var hráefnið svo allt hrært saman og sett í vambirnar undir öruggri handleiðslu mömmu, en sá háttur var hafður á til að gamlir vinnuferlar og uppskriftir glatist ekki en þetta tilbúna  slátur er einfaldlega ekki mjög gott miðað við það sem heima er gert. Það vantar t.d. allan mör í slátrið í dag og svo setjum við rúsínur í blóðmörinn en það gefur skemmtilegt auka bragð.

Þetta er fín búbót, 5 slátur gefa um 10-12 máltíðar og kostar um 5 þúsund kall og svo er bara skemmtilegt að vinna þetta. Ég hlakka til þegar krakkarnir verða aðeins stærri og geta tekið þátt.


Auðvitað

Það hlaut að koma að því.

Þetta er bara fyrsti tónn í væli vinnuveitanda. Það kemur á daginn að það eru skurðgrafarnir, þ.e. hinn almenni verkamaður sem mun koma til með að borga alla súpuna. Þessir karlar (og konur) sem sitja í stjórn fyrirtækja sjóða virðast ekki kunna neitt annað en að segja að ræfillinn sem hefur 150 þúsund á mánuði er að sliga þjóðfélagið.

Á sama tíma situr þetta fólk í fjölda stjórna og ráða og þiggur laun á mörgum vígstöðvum. Hvað skyldi Helgi Magnússon t.d. vera með í laun og ætli hann sé tilbúinn að fara í sama launaflokk og 90% af því verkafólki sem hann er að tala um er á? Nei ætli það, en það setur samfélagið endanlega á hausinn að hækka 150 þúsund kallinn um 4500 krónur á mánuði. Seðlabankastjóri talaði á sama hátt í síðustu viku þegar hann sagði að nú þyrfti að endurskoða kjarasamninga. Hann getur það, hann hefur ekki tapað eftirlaununum sínum og hann er ennþá með 15 milljónir (a.m.k.) í árslaun.

Ég held að SA og SI ættu frekar að einbeita sér að kenna félagsmönnum sínum grunninn í viðskiptafræði, þ.e. að ekki er ráðlegt að hafa útgjöld hærri en tekjur. Það er a.m.k. þannig í mínum heimilisrekstri að þegar ég stend ekki við skuldbindingar mínar þá kemur það mjög fljótlega í hausinn á mér aftur.

Það er kominn tími til að vinnuveitendur axli sína ábyrgð og viðurkenni að slæmur rekstur er ekki launþegunum að kenna.


mbl.is Varar við innistæðulausum launahækkunum á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleði og hamingja

Það er kominn tími til að setja upp sparibrosið. Ég er kominn í sumarfrí!!!! Húrra, loksins, loksins segi bæði ég, frúin og ekki síður börnin. Pabbi getum við þá farið ÖLL saman í sund og gert eitthvað skemmtilegt? fékk ég frá einu af börnunum í gær!!

Ójá það held ég nú. Það er búið að slökkva á vinnusímanum og verður ekki kveikt á honum aftur fyrr en 1. september.

Veislan byrjaði strax í gær, Kristberg Óli, mitt elsta barn, átti 9 ára afmæli og fékk hann því að ráða ÖLLU því sem gert var í gær, þ.e. eftir að ég kom úr vinnunni um hádegisbil. Eftir að hann var vakinn með pökkum þá heimtaði hann að fara í húsdýragarðinn og fór familían þangað í aldeilis frábæru veðri og áttum þar stórkostlegan tíma, bæði vegna þess að langt er síðanvið gerðum eitthvað öll saman og vegna þess að mjög fáir voru í garðinum og þurfti því ekki að standa í neinum biðröðum og/eða troðningi.

Þetta var góð byrjun á fríi og vonandi verður allur þessi mánuður í þessum gæðaflokki. Berglind er að vísu að vinna fram á fimmtudag en á föstudag leggjum við land undir fót og skellum okkur norður í Fnjóskadal þar sem við ætlum að vera í bústað í viku og svo í heimsókn í 2-3 daga til Húsavíkur.

Njótið þið helgarinnar og farið varlega í öllum ferðum og gjörðum.


Frábær dagur í gær, Herðubreið heimsótt og flogið um landið!

Gærdagurinn var einn sá besti á þessu sumri, hægar norðlægar áttir og léttskýjað eða heiðskýrt um allt land. Ég sannreyndi þetta alltsaman með einu skemmtilegasta verkflugi sem ég hef farið í síðan ég hóf störf á þessum vettvangi. Við fórum úr höfuðstaðnum að morgni og flugum milli jökla yfir í Herðubreiðalindir þar sem lent var og hittum við þar flokk galvaskra björgunarsveitamanna sem voru að fara að skipta um talstöðvarendurvarpa sem staðsettur er á toppi Herðubreiðar, en okkar aðstoð vantaði við að flytja mannskap og búnað upp á topp.

DSCN0452

Björgunarsveitamennirnir 6.

DSCN0415

Herðubreið skartaði sínu fegursta! Endurvarpinn í forgrunni.

Þegar svona er flutt með þyrlu þá eru settar stroffur í viðkomandi hlut og hann svo hengdur neðan í þyrluna. Þá þarf einhver að vera á jörðinni og húkka í krókinn.

DSCN0429

Og þá hverfur maður í mold- og sandroki.

Eftir þetta var haldið á Egilstaði, þar sem tankað var, þá upp í Héraðsflóa, þaðan til Akureyrar og að lokum yfir hálendið og til Reykjavíkur þar sem frábærum degi lauk með safaríkri grillsteik sem beið mín heima.

Þetta er leiðin til að eyða fallegum sumardegi.


Afhverju ekki?

Það sem verið er að tala um hér er að greiða einhverjum aðila fyrir að rúnta um ákveðin hverfi á ákveðnum tímum til að fylgjast með hvort eitthvað grunsamlegt eða "öðruvísi" sé í gangi. Þetta er ekkert öðruvísi þjónusta og Öryggismiðstöðin og Securitas eru að bjóða einstaklingum og fyrirtækjum upp á nema að ekki eru skynjarar í viðkomandi eignum.

Það er nokkuð ljóst að lögreglan hefur ekki og mun ekki hafa mannskap né fjármuni í svona eftirlit og menn mega ekki rugla eftiliti saman við löggæslu.

Ég fagna þessu skrefi og vona að lögreglan geti þá beitt sér enn frekar að löggæslu á meðan aðrir fylgjast með eigum fólks og kalla til lögreglu ef hlutirnir eru ekki eins og þeir eiga að vera.


mbl.is Hverfagæsla boðin út í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bensínverð

Var að spá.......

Nú er tunnan af olíu búin að lækka um 10 dollara á síðustu tíu dögum og krónan er búin að styrkjast um nokkur próstent á síðasta hálfa mánuði.

Bensínrisarnir hér eru búnir að lækka um EINA krónu á þessum tíma.

HVAR ERU LÆKKANIRNAR ÞIÐ SAMRÁÐSÞJÓFAR????

SKILIÐ ÞESSUM LÆKKUNUM TIL OKKAR!


Hverjir eru að mótmæla?

Ég er bara ekki að átta mig á þessu liði. Hvað er þetta fólk að villast hingað upp til Íslands að mótmæla jarðvarmavirkjunum? Er tíma þessa fólks ekki betur varið í að mótmæla framkomu Bandaríkjamanna gagnvart jörðinni og lífríki jarðar. Maður getur ekki betur séð en stefna yfirvalda fyrir vestan haf eigi eftir að ganga af plánetunni dauðri mikið fyrr en aðgerðir allra annara ríkja samanlagt.

Besta dæmið er nú um daginn er Bush neitaði að skrifa undir samning um helmingsminnkun skaðlegs útblástrar á næstu árum.

Einnig gæti þetta fólk farið og mótmælt framkomu stjórnvalda við fólk í ríkjum Afríku. Nei það hentar ekki.

Mig langar að öskra þegar tvískinnungsháttur þessa fólks er gerður opinber, sbr. viðtalið við Miriam Rose: "Hún segir að fyrstu dagarnir fari í það að fræða fólk um það sem sé að gerast á Íslandi". Af hverju er þetta lið að koma til landsins ef það veit ekki stöðuna og hverju á að mótmæla!

Ég ætla að hætta núna áður en ég verð orðljótur.


mbl.is Mótmælabúðir á Hellisheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er enn á lífi!

Maður er búinn að vera svo latur við að blogga að það hálfa væri nóg. Ég er búinn að vinna talsvert undanfarið og má ekki líka segja að fólk hafi gott af smá tölvufríi í þessari veðurblíðu sem búin er að herja á okkur.

En annars hefur eitt og annað gerst í blogghléinu. Ég skrapp t.d. til Færeyja 18.-20. júní, var þar í vinnuferð, tengt alþjóðafiskveiðieftirliti (vá hvað þetta er eitthvað langt orð). Þar upplifði ég að keyra megnið af vegum Færeyja, fór frá flugvellinum í Vågum til Klaksvikur og gisti þar á sjómannaheimilinu í tvær nætur áður en keyrt var til baka og flogið heim. Í Færeyjum var skýfall allan tímann. Það rigndi eldi og brennisteini og vatni frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Stórskemmtilegt alveg og fullvissaði mig um að það er hárrétt ákvörðun að hafa aldrei íhugað að flytja til þessara nágrannaeyja okkar.

Næstu tvær helgar var ég svo á þyrluvakt og fór m.a. í nokkur skemmtileg æfingaflug. Eitt það skemmtilegasta flug sem ég hef farið í var laugardaginn 28. júní en þá fórum við yfir Surtsey og þaðan yfir Heimaey þar sem Kristberg, mitt elsta barn, var að keppa á Shell mótinu, knattspyrnumoti 8-10 ára stráka. Að sögn viðstaddra vakti þetta yfirflug talsverða lukku, en við máttum passa okkur á að vera ekki of lengi yfir svæðinu þar sem strákarnir sem voru að keppa á þessum tímapunkti voru farnir að horfa meira upp í loftið en á boltann. Þaðan fórum við svo upp í Landmannalaugar þar sem við tókum eina fjallabjörgunaræfingu og flugum svo eftir Jökulgilinu. Þetta gerðist allt í frábæru veðri og var einn af hápunktum sumarsins hingað til.

Svo er búið að standa í kjarasamningabrölti en það er yfirstaðið, þ.e. ef undirritaður samningur verður samþykktur. Aldrei þessu vant þá gengu samningar hratt fyrir sig enda kannski ekki mikið í boði meðan ástand þjóðfélagsins er eins og það er.

Eftir þetta hefur verið hefðbundin rútína nema að því leyti að börnin eru öll komin í sumarfrí og því kannski ekki skemmtilegt fyrir þau, ekkert hægt að fara eða gera þar sem karlinn er í vinnu og fær ekki frí fyrr en í ágúst. Við ætlum reyndar að leysa það með því að framlengja fríi krakkana og fara í einhverja reisu norður fyrripart ágúst.

Þetta er búið að vera góður kafli undanfarið, bæði veðurfarslega og eins hefur verið lítið að gera hjá okkur á þyrlunni, nema í æfingum og það er kannski það besta.

Ég vona að þið séuð búin að njóta sumarsins og að þið gerið það áfram.


Sérfræðingar frá Danmörku!!

Bara að spegúlera. Í hverju ætli þessir ágætu danir séu sérfræðingar. Eftir því sem ég best veit eru ekki ísbirnir mikið á ferðinni í Danmörku og þó að Grænland lúti danskri stjórn þá verða danskir náttúrufræðingar ekki sérfræðingar í ísbjarnameðhöndlun.

 Þetta eru bara vangaveltur sem flokkast sem lítið annað en röfl.


mbl.is Erfið aðgerð framundan að Hrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er ekki að blogga????

Þegar ég datt inn í þennan bloggheim þá opnaðist ný tilvera fyrir mér.

Líklegasta og ólíklegasta fólk úr mínu lífi, bæði núverandi félagar og eins raddir úr fortíðinni, bæði gamlir vinir og kunningjar sem og skyldfólk þar sem samband hefur verið vanrækt, allavega af minni hálfu, hefur stungið niður fingri á lyklaborð og látið mig vita af sér og fengið upplýsingar um mig og mína hagi í gegnum bloggið.

Ég held bara að ég bjóði mig velkominn til framtíðar (nútímans) og reyni að fylgja þróuninni framvegis.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vilhjálmur Óli Valsson
Vilhjálmur Óli Valsson

Tuðari af Guðs náð

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband